Færsluflokkur: Bloggar

Gleðilegt göngu- og hlaupasumar

Nú er sumarið gengið í garð - a.m.k. samkvæmt dagatalinu Smile.  Vel var mætt í Fram hlaupið á  sumardaginn fyrsta, þar sem börn og fullorðnir hlupu ýmist 3 eða 7,6 km í góðu veðri. Gaman að taka þátt í þessu og greinilegt að árlegt Fram hlaup á þessum tíma er komið til að vera. 

Nú höfum við ekki lengur aðgang að íþróttasal Sæmundarskóla og því verða allar æfingar nú úti. Við hittumst eins og áður við Ingunnarskóla á sömu tímunum og áður og göngum eða skokkum þaðan. Við hvetjum sem flesta til að láta nú verða af því að drífa sig með í hópinn og njóta útiverunnar, hreyfingarinnar og félagsskaparins í sumar. 

Æfingatímar sumar 2012b


Sumarhlaup Fram

Nú er sumardagurinn fyrsti í vændum og þá er Fram hlaup frá Ingunnarskóla kl: 10:00 eins og undanfarin ár. Í boði er að hlaupa tvær vegalengdir, 3 km og 7,6 km, allir leggja af stað frá Ingunnarskóla og niður að golfvellinum og yfir hann, eftir 1,5 verður merki og vörður og þar snúa þeir við sem ætla 3 km hinir halda áfram hjá moggahúsinu og vestan við Rauðavatn og hringinn um það aftur upp hjá mogga og yfir golfvöllinn að Ingunnarskóla. Óformleg tímataka og verðlaun í boði fyrir þrjá fyrstu og viðurkenningar fyrir alla krakka, skráning hefst í Ingunnarskóla kl: 9:30.

Endilega fjölmenna með alla úr fjölskyldunni og hafa gaman saman.


Ný vika, ný markmið.

En ein vikan liðin og ný framundan, vonandi hafið þið farið varlega í súkkulaði og aðrar freistingar um páskahátíðina

Í síðasta pistli var verið að vísa í síðu sem heitir www.iþrottir.is. það eru pistla undir "Heilbrigð heilsuráðgjöf" eftir Siggu Karls. Meðal annars Þessi:

 Setjið raumhæf markmið - Æfing dagsins

Skoðið markmiðin ykkar. Eigið þið erfitt með að ná þeim? Gefist þið upp fljótlega? Brjótið þið ykkur niður fyrir að ná þeim ekki? Getur verið að markmiðin séu of há, alltof óraumhæf?

Setjist niður og skoðið raunhæf markmið. Á hvaða stað vil ég vera akkúrat eftir eitt ár? Hvernig ætla ég að komast á þennan stað? Skrifið niður 6 atriði sem ykkur langar að vera búin að ná á einu ári.

Æfið ykkur í að setja raunhæf, gleðileg markmið og æfið ykkur dag hvern að komast nær þeim! :) Ef þið náið ekki markmiðum dagsins, þá kemur annar dagur eftir þennan dag og þið getið, eftir bestu getu, reynt að ná þeim þá! Gangi ykkur vel.

Þetta er athugunar vert, setjið ykkur markmið og þjálfararnir eru allir að vilja gerðir til að hjálpa ykkur , ekki gefast upp þó allt gangi ekki eins og þið ætluðuð í fyrstu og alls ekki brjóta ykkur niður, æfingin skapar meistarann.


Hlaup í dymbilviku

Nú er dymbilvikan framundan og síðan páskar, en engin ástæða samt til að slá slöku við í hlaupunum. Ég heyrði á tal fólks um daginn varðandi þessa viku og hvers vegna eiginlega hún héti dymbilvika.  Einhver velti því fyrir sér hvort það hefði orðið hljóðbreyting á nafninu og þetta hefði upphaflega verið dindilvika - af því hún væri svo stutt Smile.  En Wikipedia svarar þessu eins og svo mörgu öðru.

"Dymbilvika (páskavika, kyrravika, dymbildagavika) er vikan fyrir páska og síðasta vika lönguföstu. Hún hefst á pálmasunnudag og lýkur á laugardeginum fyrir páskadag. Í kristinni trú er venjan að tileinka þessa viku kyrrð og íhugun guðspjallanna. Á páskadag hefst svo páskavikan. Dymbilvika heitir einnig öðru nafni efsta vika, þ.e. síðasta vikan fyrir páska. Nafnið kyrravika bendir svo á að í þessari viku skyldu menn vera hljóðari og hæglátari en nokkru sinni endranær og liggja á bæn."

"Dymbildagar eru síðustu þrír dagarnir fyrir páska: skírdagur, föstudagurinn langi og hvíldardagurinn á laugardag (triduum sacrum). Þá var hringt inn til messu með tréskellum, svonefndum klöprum (tinnibulum), í stað klukkna og draga þessir dagar líklega íslenskt nafn sitt af því (dymbill). "

"Dymbilvika mun draga nafn sitt af áhaldinu dymbill sem var einhverskonar búnaður til að gera hljóð kirkjuklukkna drungalegra og sorglegra (dumbara), þegar hringt var til guðsþjónustu á þessum síðustu dögu föstunnar. " (Wikipedia)

En aftur að hlaupunum - það má líka alltaf finna fróðlegt efni á vefnum sem tengist því viðfangsefni. Þar má til dæmis nefna síðuna www.iþrottir.is, en þar er að finna ýmsan fróleik og góð ráð varðandi hinar ýmsu íþróttir (m.a. hlaup). Þar sem nú er vorið og sumarið framundan og við á leið að stunda hlaupin eingöngu úti við, má t.d. nefna umfjöllun um skemmtilega leiki til að auka hlaupahraða. Þar kemur fram að til að auka hlaupahraðann þurfum við að hafa 1-2 hraðaæfingar í viku. Gaman að skoða þessa síðu, t.d. um hlaupahraðann og strák með frábæra hlaupatækni.

Áætlun fyrir hlaup vikunnar er komin hér til vinstri.


Vorið er komið og grundirnar gróa .............

Það er akkúrat svona sem líðanin er núna þessa daga þegar hlínar í lofti og sólin skín. Cool

Það er búið að vera vel mætt á æfingar undanfarið og þjálfararnir mjög ánægðir með okkur, já það eru tveir þjálfarar, Ómar kærasti Maju Petu verður með okkur líka þau skiptast á að þjálfa okkur. Ómar er líka ÍAK þjálfari og hlaupari, svo þetta verður fjölbreytt og enn skemmtilegra hjá okkur.

Það styttist óðum í sumardaginn fyrsta og eftir hann verða allar æfingar komnar út, íþróttahúsunum verður lokað eftir skólatíma vegna sparnaðar. Við getum fengið að vera á gervigrasinu á þriðjudögum kl: 18-18:45, nánar kynnt síðar.

Á sumardaginn fyrsta verður eitthvað gert hér í hverfinu sem hópurinn okkar kemur að eins og síðustu ár. Fjölskyldu ferð á Úlfarsfell er einnig á döfinni ca 23. maí, nánar kynnt síðar.

Alltaf eitthvað spennandi að gerast, bara fylgjast með og aldrei of seint að byrjaWink


"Skokkhópur" - eða hvað ?

Rakst á stutta grein í Neytendablaðinu frá 2009, þar sem fjallað er um skokk. Margir góðir punktar þar. T.d.  

Hvað er besta leiðin til að koma sér af stað? Fara í skokkhóp eða hlaupa með vinum?

„Ég held að mikilvægt sé að velja sér góða vini þegar einstaklingar fara að æfa hlaup. Ekki velja hlaupavini sem gefast upp við minnsta mótlæti eða hafa 100 afsakanir til að koma sér hjá því að mæta á æfingar. Þess vegna mæli ég með skokkhópum. Þar er fólk sem tekur vel á móti nýliðum, aðstoðar þá og leibeinir eftir bestu getu."     (Neytendablaðið 2.tbl. 2009).   Hér er tengill í greinina.

Annað - þetta orð "skokk". Eruð þið viss um að það sé það sem við eru að stunda ? Samkvæmt Íslenskri orðabók Menningarsjóðs (1983) merkir skokk, "óþýtt, hosskennt hlaupalag hesta" !

Æfingar vikunnar framundan eru komnar hér til vinstri. Hvernig líst ykkur annars á að breyta aðeins til einhvern tímann þegar veðrið fer að batna enn frekar og ganga á Esjuna eða fara í hjólatúr í stað hefðbundinnar æfingar ?


Aðalfundur Almenningsíþróttadeildar Fram

Skokkhópurinn okkar heyrir undir Almenningsíþróttadeild Fram. Næst komandi þriðjudag er aðalfundur deildarinnar og um að gera að mæta sem flest þangað. Dagskrá fundarins er hér að neðan.
 

Aðalfundur Almenningsíþróttadeildar FRAM verður haldinn á Café Milanó þriðjudaginn 20. mars kl. 20:00

Dagskrá:

1) Venjuleg aðalfundarstörf

2) Önnur mál

Allir velkomnir

Stjórnin


Vetur á undanhaldi.

Síðasta vika var frekar erfið, veðurlega séð þó við látum það ekki hafa mikil áhrif á okkur, klæðum okkur eftir veðri og alltaf jafn gott að hlaupa úti.

 Sl. laugardag gáfum við snjónum langt nef og skokkarar ásamt gönguhrólfum stefndu á vit gönguleiða út í Grafarvog og ætluðu mislangt eftir efnum og ástæðum, þeir sem lengst fóru ætluðu sér um of því þungfært reyndist þegar komið var út í Elliðaárdal og upp hjá Moggahúsi og þar yfir golfvöllinn, allir komu þó heilir heim og engum varð meint af. Það var nefnilega svo gott veður og færð viku fyrr að við gleymdum því að það gæti verið snjór á stígum, vorið kallar og allir hlakka til þess.

Sjáumst hress og alltaf kát.


Ný vika - æfingar vikunnar

Æfingaplan fyrir vikuna er komið hér til vinstri. Vegleg verðlaun fyrir bestu mætingu vikunnar.

(Hver verðlaunin eru má finna á uppskriftasíðunni)


Gaman saman.

Hópur saman stendur af fólki sem hittist og hefur td. sömu áhugamál. Skokkhópur er hópur fólks sem hefur gaman af því að skokka, gönguhópur er hópur fólks sem hefur gaman af því að ganga.

Skokkhópurinn okkar saman stendur af fólki sem hefur gaman af hvoru tveggja og því fleiri sem stunda æfingar því betra því þá finna allir félaga með sömu getu því fólk fer mis hratt og er með mismunandi markmið en öll höfum við það að markmiði að hreyfa okkur úti og njóta dagsins í nóu súrefni í góðum félagsskap.

Svo nú er ekki eftir neinu að bíða bara mæta og hafa gaman af. Muna, aldrei of seint að byrja.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband